„Hann tefldi til að sigra“
- Farandbikar til minningar um Svein Gunnar Gylfason
Sveinsbikarinn var afhentur í fyrsta sinn á Íslandsmóti 20 ára og yngri í skák, sem fram fór um síðustu helgi. Bikarinn er til minningar um Keflvíkinginn Svein Gunnar Gylfason. Sveinn lést árið 1983, aðeins 16 ára gamall og hafði þá náð eftirtektarverðum árangri í skákíþróttinni enda var hann mikill keppnismaður. Hann veiktist skyndilega þegar hann var að keppa á skákmóti í Garðabæ og lést nokkrum dögum síðar. Sveinn fæddist í apríl árið 1966 og voru því liðin fimmtíu ár frá fæðingardegi hans fyrr ár árinu og vildi fjölskylda Sveins minnast hans með þessum hætti.
„Sveinn var mikill húmoristi, stríðinn og skemmtilegur strákur,“ segir Guðrún Jónsdóttir, móðir Sveins. Hún kenndi honum mannganginn þegar hann var fimm ára. „Honum fannst skákin strax skemmtileg og við tefldum mikið saman fyrsta árið. Hann var mikill baráttumaður og vildi alltaf vinna.“ Í fjölskyldunni eru margir áhugamenn um skák og var mikið teflt á heimilinu. Móðurafi hans, Jón Sæmundsson, var líka mikill áhugamaður um skák og fóru þeir saman á æfingar hjá Skákfélagi Keflavíkur. „Með tímanum tókst Sveini að vinna alla í kringum sig; pabba sinn, afa, bróður og fleiri. Hann skoraði á alla sem komu í heimsókn og fékk mikla þjálfun út úr því. Hann hafði svo gaman af leiknum og vildi vinna, enda var hann að spila til þess,“ segir Guðrún.
Sveinn Gunnar Gylfason lærði mannganginn aðeins fimm ára gamall. Hann náði einstökum árangri í skák og varð Íslandsmeistari í flokki 20 ára og yngri þegar hann var 14 ára. Hann lést 16 ára gamall. Í ár voru liðin 50 ár frá fæðingardegi hans.
Sveinn varð unglingameistari Íslands í flokki 20 ára og yngri árið 1980, aðeins 14 ára gamall og mun hann vera sá yngsti sem borið hefur þann titil. Sveinn bjó með fjölskyldu sinni í Kaupmannahöfn frá 1978 til 1979 og varð þá unglingameistari í sínum aldursflokki og hafnaði í öðru sæti á unglingameistaramóti Danmerkur. Sveinn fór með föður sínum á einvígi Boris Spassky og Robert Fisher sem haldið var í Laugardalshöllinni 1972 og var það stór stund fyrir skákmanninn unga.
Systkinin Sveinn Gunnar, Bára Kolbrún og Gylfi Jón.