Hamarsstúlkur völtuðu yfir Keflavík
Sláturhúsið stóð sannarlega undir nafni í kvöld en óhætt er að segja að Keflavíkurstúlkum hafi verið slátrað af sterku Hamarsliði í einum slakasta leik Keflavíkurliðisins í vetur. Lokatölur leiksins voru 48-91 en staðan í hálfleik var 28-40.
Staðan í einvíginu er þá 2-2 og verður eflaust allt lagt undir fyrir oddaleikinn sem fer fram á þriðjudaginn í Hveragerði.
Hamarsstúlkur mættu einbeittar í leikinn og virtust staðráðnar í að leikur kvöldsins yrði ekki þeirra síðasti á þessu tímabili. Frábær vörn þeirra hélt Keflavíkurkonum í 48 stigum. Sóknarleikurinn var einnig feykigóður en Hamar virtist geta skorað nákvæmlega þegar þeim hentaði. Keflavíkurkonur mættu vart í sjálfan leikinn og greinilega brýn þörf á hugarfarsbreytingu þar á bæ.
Atkvæðamestar í liði Hamars voru Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með 22 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar, Koren Schram með 19 stig og 7 fráköst og Julia Demirer og Kristrún Sigurjónsdóttir voru báðar með 15 stig en Demirer hirti einnig 12 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
Í liði Keflavíkur var Bryndís Guðmundsdóttir með 14 stig, Birna Valgarðsdóttir með 13 stig og Kristi Smith með 9 stig.
VF-myndir og texti/ Hildur Björk Pálsdóttir