Hallgrímur hafnaði fyrsta tilboði GAIS
Varnarmaðurinn sterki, Hallgrímur Jónasson, hafnaði fyrsta samningstilboði frá sænska úrvalsdeildarliðinu GAIS. Tilboðið var ekki nógu gott að mati Hallgríms og umboðsmanns hans og því var því neitað. Gagntilboð hefur verið sent sænska félaginu og mun ráðast á næstu dögum hvort Hallgrímur muni leika með liðinu á næsta tímabili.
„Samningaviðræður við GAIS hafa ekki enn náðst, en við erum engu að síður ennþá í viðræðum við félagið. Mér lýst mjög vel á félagið, borgina, liðið og þjálfarann, en ég er ekki að fara erlendis að spila fótbolta, bara til að fara erlendis. Ég vonast til að við náum samkomulagi og ég fari til félagsins, en maður veit aldrei hvað gerist í fótboltanum,“ sagði Hallgrímur í samtali við Víkurfréttir í dag.
Hallgrímur lék 24 leiki með Keflavík í deild og bikar í sumar og skoraði eitt mark. Jóhann Birnir Guðmundsson lék með GAIS í nokkur ár og í dag leikur Eyjólfur Héðinsson með liðinu.
VF-MYND/Hilmar Bragi: Það ræðst á næstu dögum hvort Hallgrímur Jónasson fer til sænska liðsins GAIS.