Hallgrímur gerði fimm ára samning við GAIS
Varnarmaðurinn sterki, Hallgrímur Jónasson, sem leikið hefur með Keflavík undanfarin ár, hefur gert fimm ára samning við sænska úrvalsdeildarliðið GAIS. Samningur Hallgríms við Keflavík rann út um miðjan þennan mánuð og því þurfti GAIS ekki að borga Keflavík fyrir leikmanninn. Hann er himinlifandi með að hafa náð samningum við félagið og segir atvinnudraumurinn sé að verða að veruleika.
„Ég er gríðarlega sáttur með að hafa náð samningum við GAIS og þetta er algjör draumur fyrir mig. Ég er mjög ánægður með samninginn sem mér var boðinn og ákvað því að slá til. Ég á vafalaust eftir að bæta mig sem knattspyrnumaður í Svíþjóð. Þetta er stór klúbbur og þar æfa menn eins og atvinnumenn allt árið um kring. Mér líst mjög vel á þjálfarann, liðið og borgina þannig að þetta er bara draumur sem er að verða að veruleika,“ sagði Hallgrímur í samtali við Víkurfréttir.
Nánar verður rætt við Hallgrím í næsta tölublaði Víkurfrétta sem kemur úr á morgun.
VF-MYND/Hilmar Bragi: Hallgrímur Jónasson mun leika í Svíþjóð á næsta tímabili.