Hafa synt rúma 20 kílómetra
Iðkendur við sunddeild Grindavíkur hófu í morgun áheitasund sitt til styrktar fjölskyldu Andra Meyvantssonar sem nýlega greindist með æxli í heilastofni. Markmiðið með maraþonsundinu er að synda um það bil 100 km og hafa lokið þeim um kvöldmatarleytið annað kvöld. Magnús Már Jakobsson yfirþjálfari hjá sunddeild Grindavíkur sagði mikinn hug í krökkunum en átti þó von á erfiðum kafla í nótt.
,,Krakkarnir brugðu á þetta ráð af sjálfsdáðum,” sagði Magnús í samtali við Víkurfréttir. ,,Þau voru í pottinum á dögunum og umræðan var einelti því þau hafa orðið var við slíkt hér í Grindavík fyrir það eitt að stunda sund. Í kjölfarið af þessari umræðu datt þeim í hug að láta gott af sér leiða en Sindri bróðir Andra æfir sund hér hjá okkur,” sagði Magnús en þegar Víkurfréttir náðu tali af honum um kl. 14 í dag höfðu krakkarnir verið búin að synda rétt rúma 20 km síðan í morgun.
,,Það er hörkukraftur í þeim núna en það breytist þegar líður á nóttina, ég hef samt engu að síður trú á þeim, ég hef alltaf trú á mínu fólki,” sagði Magnús og miklar það ekki fyrir sér að vinna til titla. ,,Fyrir mér eru medalíur ekki mikils virði því ef krökkunum líður vel og eru edrú þá er ég afskaplega glaður. Mitt helsta markmið hér er að veita góða forvörn,” sagði Magnús.
Búið er að stofna reikning sem hægt er að leggja inná til að styrkja fjölskyldu Andra:
reikningsnúmerið er: 0143-05-062993
kt. 1912645179
VF-Mynd/ Þorsteinn Gunnar Kristjánsson – Sundhópurinn galvaskur á bakkanum fyrr í dag.