Gylfi efstur í Íslandsmótinu
Gylfi Freyr Guðmundsson er efstur í Íslandsmótinu í Motocrossi með 126 stig þegar tveimur umferðum er lokið. Gylfi sigraði aðra umferð mótsins með nokkrum yfirburðum en mótið fór fram í Álfsnesi í Reykjavík sl. sunnudag.
„Um morguninn var mikil drulla á brautinni en sólin kom svo upp og þurrkaði hana og mótið varð því skemmtilegra,“ sagði Gylfi sem er á sínu þriðja ári í meistaraflokki en hann hefur fimm ára reynslu í motocrossinu. Keppt var í þremur umferðum á mótinu þar sem Gylfi varð tvisvar sinnum í fyrsta sæti og einu sinni í öðru sæti sem gaf honum 72 stig fyrir allt mótið.
Félagi Gylfa, Aron Ómarsson, varð fyrir því að hjól hans bilaði og lauk hann keppni á lánshjóli og náði sér ekki á strik. Aron er í áttunda sæti Íslandsmótsins með 71 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Á meðan Aron var í basli gekk allt upp hjá Gylfa en hann er einbeittur og stefnir að því að hampa Íslandsmeistaratitlinum á heimavelli. „Ég var í 4. sæti á Íslandsmótinu eftir fyrstu umferð en nú eru tvær umferðir eftir og síðasta mótið fer fram á Sólbrekkubraut í Reykjanesbæ,“ sagði Gylfi en hann ekur á Honda CRF 450 sem er um 55 hestafla motocrosshjól. Þriðja umferðin fer fram á Akureyri þann 5. ágúst og lokakeppnin á Sólbrekkubraut.