GVS hafði sigur á vinabæjarmótinu
Fyrirhugað að stækka Kálfatjarnarvöll
Vinabæjarmót Voga og Sandgerðis í golfi fór fram um helgina á Kirkjubólsvelli í Sandgerði. Kylfingarnir í mótinu fengu kjörið golfveður og voru það liðsmenn GVS frá Vogum sem höfðu sigurí mótinu með sjö högga mun. Vogamenn léku á 710 höggum með forgjöf en Sandgerðingar léku á 717 höggum með forgjöf. Annel Þorkelsson úr GSG var þó með besta skorið í mótinu og lék á 72 högggum.
Sigurvegarar í mótinu með forgjöf:
1. sæti Sigurður E Rögnvaldsson GVS á 65 höggum m/fgj.
2. sæti Stefán Sveinsson GVS á 69 höggum m/fgj.
3. sæti Guttormur Pálsson GVS á 69 höggum m/fgj.
Næstur holu á 2/11 var Elías Einar Guðmundsson GSG 2.55 m.
Lengsta teighögg á 9/18 var Svavar Grétarsson GSG.
„Ætli það séu ekki komin átta ár síðan við byrjuðum á þessum mótum og ég held að við höfum alltaf unnið,” sagði Finnbogi Kristjánsson formaður GSV kátur í samtali við kylfingur.is. „Að öllu gamni slepptu þá höfum við átt gott samstarf við Sandgerðingana í gegnum tíðina og þessi mót hafa verið vel til þess fallina að auka samstarf klúbbanna. Það er gaman af þessum mótum og jafnan góð mæting,” sagði Finnbogi sem keppti ekki sjálfur í mótinu þar sem hann var í veiði.
„Framundan hjá okkur er bara sumarið, bullandi umferð og við höfum á að skipa dugmikilli mótanefnd og þá er stigamót hjá okkur næsta fimmtudag og töluvert um útleigu á Kálfatjarnarvelli. Hér hefur verið nánast óbreytt stjórn síðustu sjö árin og menn samhentir um það sem verið hefur gert og þarf að gera,” sagði Finnbogi og nú stendur til að byggja annan níu holu golfvöll á Kálfatjörninni.
„Við erum að skoða stækkunarmöguleika fyrir annan níu holu völl og þá erum við að lengja hjá okkur gamla völlinn og lagfæra nokkur atriði á honum svo það eru virkilega spennandi tímar framundan. Nýverið rufum við 200 félaga múrinn sem er sögulegt hámark hjá GVS og það fjölgar ört hjá okkur.”
Búið er að þinglýsa samningi um annan níu holu golfvöll við Kálfatjörnina og verður stækkun vallarins sett inn á framtíðarskipulag Vogabæjar svo Finnbogi og félagar í GVS eru bjartsýn og „spýta í lófan” eins og Finnbogi komst að orði.
Mynd: Sigursveit GVS kát í bragði í mótslok.