Gunnar tryggði sér Heimsbikartitilinn
Torfærukappinn Gunnar Gunnarson úr Reykjanesbæ og aðstoðarmenn hans í Trúðurinn Racing Team tóku þátt í Heimsbikarmóti og Skandinavíumótinu í torfæru í Finnlandi um síðustu helgi. Trúðnum gekk mjög vel báða dagana sér í lagi á laugardeginum. Trúðurinn var langefstur þann daginn. Á sunnudeginum gekk brösulega til að byrja með. Bilun varð í bensínkerfinu þar sem það fylltist af sandi. Liðsmenn Trúðsins náðu að bjarga því þegar keppnin var um það bil hálfnuð. Fór svo að Trúðurinn fór upp brautir sem önnur lið komust alls ekki í gegnum. Liðið tryggði sér Heimsbikartitilinn með glæsibrag og vann Skandinavíumótið með miklum yfirburðum og var á vörum keppinautanna að best væri að setja Gunnar Gunnarsson í keppnisbann í eins og eitt ár svo þeir gætu átt möguleika á að ná honum að stigum. Gunnar og liðsmenn segja þessa upplifun hafa verið draumi líkast. Ein keppni er eftir í Íslandsmótinu þar sem Trúðurinn er efstur og ætla Gunnar og liðsmenn hans sér að sjálfsögðu að taka þann titil líka.
Gunnar Gunnarsson vonast til þess að komast til Svíþjóðar og klára þær tvær keppnir sem eftir eru í Skandinavíumótinu og taka titilinn með tilþrifum. Til þess að það verði að veruleika þarf hann á dyggum stuðningi að halda enda kostnaðarsamt að koma Trúðnum og liðsmönnum út fyrir landsteinana. Vill Gunnar nýta tækifærið og þakka eftirtöldum fyrirtækjum kærlega fyrir stuðninginn, bílaleigunni Sixt, Nesbyggð, Sparisjóðnum í Keflavík sem og öðrum styrktaraðilum.
Mynd/JAK