Gunnar skrifar undir hjá ÍBV
Grindvíkingurinn Gunnar Þorsteinsson, leikmaður Ipswich, hefur gert tveggja ára samning við ÍBV. Fotbolti.net greinir frá þessu í dag. Gunnar hefur undanfarin tvö ár verið á mála hjá Ipswich en hann fékk ekki áframhaldandi samning hjá félaginu.
Þessi 19 ára gamli leikmaður þekkir vel til í Eyjum því að hann var í yngri flokkum ÍBV áður en hann fór í Grindavík. Faðir hans, Þorsteinn Gunnarsson, varði einnig mark ÍBV á sínum tíma.
Gunnar fór til Englands 2011 frá Grindavík eftir að hafa komið við sögu í tveimur leikjum í Pepsi-deildinni. Hann hefur leikið fyrir öll yngri landslið Íslands.