Gunnar Oddsson: „Kjaftshögg“
„Þetta var kjaftshögg,“ sagði Gunnar Oddsson, þjálfari Sandgerðinga í 2. deild, en liðið féll í gærkvöldi úr VISA bikarkeppninni í knattspyrnu eftir 2-1 ósigur gegn utandeildarliðinu Drangi.
Guðmundur Auðunsson kom Drangi í 1-0 en Ólafur Ívar Jónsson jafnaði metin á 31. mínútu og voru liðin jöfn í hálfleik.
„Við áttum þennan leik meira og minna en þeir voru með nokkra skæða leikmenn sem reyndust okkur erfiðir,“ sagði Gunnar sem skrifaði ósigurinn á rangt hugarfar. „Menn mættu ekki rétt stemmdir til leiks en svona er þetta í bikarnum, hið óvænta getur alltaf gerst.“
Guðmundur var svo aftur á ferðinni á 90. mínútu leiksins og gerði þá sigurmark Drangs 2-1. „Við áttum svona 7-8 góð marktækifæri sem við hefðum átt að nýta betur. Nú er ekkert annað í boði fyrir okkur en að einbeita okkur að deildinni, það hefði þó verið gaman að halda áfram í bikarnum,“ sagði Gunnar að lokum.
VF-mynd/ HBB: Gunnar Oddsson var ekki kátur með úrslitin en getur nú farið að einbeita sér að 2. deildinni en þar eru Sandgerðingar nýliðar.