Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Gunnar Oddsson hættir hjá Reyni
Mánudagur 2. október 2006 kl. 11:17

Gunnar Oddsson hættir hjá Reyni

Knattspyrnuþjálfari Reynismanna, Gunnar Oddsson, hefur ákveðið að segja upp störfum sem þjálfari Reynis en liðið vann sér sæti í 1. deild á dögunum er þeir höfnuðu í 3. sæti annarar deildar.

Gunnar tilkynnti stjórn Reynis þessa ákvörðun sína í gærkvöldi. Að sögn Guðmundar Rúnars Jónssonar, framkvæmdastjóra Reynis, skildu leiðir Gunnars og Reynismanna í mesta bróðerni og þakkaði Guðmundur honum fyrir góð störf í þágu félagsins.

„Ég ákvað að stíga út úr þessu farsæla samstarfi og að sjálfsögðu skil ég við Reyni í góðu. Sjálfur lék ég knattspyrnu í 18 ár og var aldrei með sama þjálfarann í fjögur ár svo þetta er búið að vera langur og góður tími hjá Reyni,“ sagði Gunnar Oddsson, fráfarandi þjálfari Reynismanna.

Gunnar sagði einnig tímabært að taka næsta skref í þjálfuninni en hans mál skýrast síðar í dag. „Það er toppfólk að störfum hjá Reyni og ef þau halda rétt á spilunum á liðið eftir að spjara sig í 1. deildinni,“ sagði Gunnar að lokum.

Gunnar Oddsson tók við Sandgerðingum í 3. deild og hefur sem þjálfari liðsins farið með það upp um tvær deildir og eiga Sandgerðingar eflaust eftir að sakna starfskrafta hans.

[email protected]


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024