Gunnar Odds og Zoran saman? - Ákveðið að ræða líka við Frey
Það er lúxusvandamál í Keflavík í þjálfaramálum og líklega verður rætt við þrjá heimamenn fyrir helgina. Þegar hefur verið rætt við Zoran Ljubicic og á föstudag verður fundur með Gunnari Oddssyni. Einnig stendur til að ræða við Frey Sverrisson samkvæmt upplýsingum úr knattspyrnudeild Keflavíkur.
„Ég á fund með Keflavík á föstudag og vonandi skýrist þetta fyrir eða um helgina. Knattspyrnuráðið vill alla vega fá mig á fund. Það blundar alltaf í manni þjálfarahjartað og ég myndi að sjálfsögðu skoða það að sinna þessu með öðrum þjálfara. Vegna míns starfs er nokkuð öruggt að ég tæki ekki við liðinu einn, þannig að hitt myndi henta mér betur, ef það stendur til boða,“ sagði Gunnar Oddsson, fyrrverandi leikmaður og þjálfari meistaraflokksliðs Keflavíkur aðspurður um það hvort hann yrði hugsanlega næsti þjálfari liðsins.
Keflvíkingar hafa látið hafa það eftir að þeir vilji heimamann eða heimamenn til að sinna þjálfun liðsins í Pepsi-deildinni. Gunnar Oddsson og Zoran Ljubicic hafa báðir verið nefndir í þessu sambandi. Samkvæmt heimildum VF þá hyggjast Keflvíkingar einnig ætla að heyra hljóðið í Frey Sverrissyni en hann er eins og hinir tveir, fyrrverandi leikmaður Keflavíkur og margreyndur þjálfari yngri flokka í Njarðvík og Haukum og með yngri landslið Íslands. Það er því nokkurs konar lúxusvandamál hjá forráðamönnum Keflavíkur þessa stundina því framboðið sem þeir hafa er gott. Allt fyrrverandi leikmenn Keflavíkur og allir með góða reynslu í þjálfun þó svo Gunnar sé sá eini sem hafi þjálfað í meistaraflokki. Hann þjálfaði Keflvíkingar með Sigurði Björgvinssyni árin 1997-1999 og fyrsta árið þeirra gerðu þeir Keflvíkinga að bikarmeisturum. Þá hefur Gunnar síðan þjálfað Sandgerðina í 4 ár og lið Þróttar í Reykjavík í þrjú ár. Í sumar kom hann Willum til aðstoðar á miðju tímabili.
„Ég þekki Zoran mjög vel og það vita flestir í hreyfingunni að hann er fær þjálfari. Þessir ungu strákar í Keflavíkurliðinu eru flestir að koma úr liðium sem hann hefur þjálfað hjá Keflavík undanfarin ár. Þessir peyjar eru flestir mjög góðir tæknilega séð sem er eitthvað sem hefur oft vantað í íslenska fótboltanum. Þá talar Zoran íslensku eftir að hafa dvalið hér lengi og það er gríðarlegur kostur,“ sagði Gunnar en ekki er talið ólíklegt að Keflvíkingar vilji hafa þá tvo saman. Aðspurður um Frey sagði Gunnar að hann væri án efa líka góður kostur fyrir Keflavík. Hann hefði langa reynslu af þjálfun yngri leikmanna og flokka. Málið væri í höndum forráðamanna Keflavíkur að vinna úr þessum möguleikum sem nú lægju fyrir.