Gunnar: „Nýi kaninn veit að montrétturinn er húfi“
„Montrétturinn í Reykjanesbæ er í húfi og ég skora á sem flesta að mæta á leikinn í kvöld og styðja við bakið á okkur,“ sagði hinn þaulreyndi leikmaður Keflavíkur Gunnar Einarsson við Víkurfréttir í dag en í kvöld er stórleikur á dagskrá í TM-höllinni í Keflavík. Þar taka heimamenn á móti grannaliðinu úr Njarðvík en fyrri leik liðanna í Dominosdeild karla lauk með sigri Keflavíkur. Leikurinn hefst kl. 19.15.
Gunnar tók körfuboltaskóna af hillunni í haust og er ásamt Damon Johnson „gamalt en bragðgott“ krydd í Keflavíkurliðinu. Gunnar er ánægður með nýja bandaríska leikmanninn Davon Usher í liði Keflavíkur – sem er að hans sögn mikill íþróttamaður.
„Við erum búnir að ná vel saman eftir áramót ef við tökum út leikina gegn KR. Þetta snýst um það að spila sem lið og þannig náum við að fá það besta fram í hverjum og einum. Davon Usher kemur vel út og er mikill íþróttamaður. Það eru búið að fara yfir með honum að svona granna slagur snýst ekkert bara um að vinna til þess að komast ofar í töflunni heldur er það líka montrétturinn sem er í húfi. Það skipta allir leikir máli til þess að koma sér í sem bestu stöðuna fyrir úrslitakeppnina og við ætlum okkur að sjálfsögðu að klifra eins nálægt toppnum og við mögulega getum. Til þess þurfum að halda áfram að vinna í okkar hlutum, spila sem lið og hafa trú á því sem Sigurður og Jón eru að leggja upp með.“
Gunnar er ánægður með þróunina í körfuboltanum á Íslandi og segir að karfan sé greinilega á uppleið.
„Deildin hefur verið skemmtileg og gaman að sjá hvað við eigum marga bráð efnilega körfuboltamenn og konur á landinu, greinilegt að við erum að gera eitthvað rétt og ekki skemmir það fyrir því að við körfuboltafólk eigum íþróttamann ársins og lið ársins. Það má ekki gleyma að karlalandsliðið er komið í úrslitakeppni EM2015 sem er hápunktur körfuboltans á Íslandi fram til þessa.“