Gunnar Heiðar áfram aðalþjálfari Njarðvíkinga
Knattspyrnudeild Njarðvíkur hefur samið við Gunnar Heiðar Þorvaldsson um hann verði aðalþjálfari meistaraflokks karla út leiktíðina 2025 í hið minnsta. Gunnar verður í fullu starfi sem þjálfari meistaraflokks karla.
Gunnar Heiðar tók við liði Njarðvíkur í júlí þegar liðið var statt á ólgusjó í deildinni og náði ásamt þjálfarateyminu að rétta skútuna af og bjarga liðinu frá falli úr Lengjudeildinni.
Fimmtán af 23 stigum Njarðvíkurliðsins í sumar komu undir stjórn Gunnars í þeim tíu leikjum sem Gunnar var við stjórnvölinn.
Það er mikil ánægja hjá knattspyrnudeildinni að hafa náð samkomulagi við Gunnar um að halda áfram þeirri vegferð sem Njarðvíkurliðið er á, segir í tilkynningu á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Njarðvíkur.