Gunnar Einarsson byrjar aftur
Leikur með Keflvíkingum í vetur
Keflavík hefur samið við bakvörðinn Gunnar Einarsson um að hann leiki með liðinu í Domino's deild karla í körfubolta í vetur. Gunnar lék síðast með Keflavík tímabilið 2010-2011 en hann á að baki afar farsælan feril með liðinu. Síðan Gunnar hætti körfuboltaiðkun hefur hann helgað sig einkaþjálfun, en segja mætti að kappinn hafi sjaldan verið í betra formi en einmitt núna. Það verður forvitnilegt að sjá Gunnar með gamla félaga sínum Damon Johnson í vetur, en á dögunum varð ljóst að hann ætlar sér að snúa aftur í Bítlabæinn.
Á heimasíðu Keflavíkur segir að stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur hafi sl. þrjú ár reynt að fá Gunnar til þess að draga fram körfuboltaskóna og því ríki nú mikil ánægja með að hann hafi ákveðið að taka slaginn með liðinu í vetur.