Gunnar efstur í götubílaflokki
Um síðustu helgi fór fram fjórða stigamót sumarsins í torfæru og gaf það stig bæði í Íslands- og heimsbikarmótunum. Suðurnesjamaðurinn Gunnar Gunnarsson, vann flokk götubíla og er efstur að stigum á Íslandsmótinu, en deilir efsta sætinu í heimsbikarmótinu með Ásgeiri Jamil Allanssyni. Tveir aðrir Suðurnesjamenn kepptu á mótinu um síðustu helgi, en það eru þeir Páll Antonsson og Gunnar Ásgeirsson og keppa þeir báðir í flokki sérútbúinna bíla. Báðir eru þeir um miðbik stigakeppnanna. Næsta torfærukeppni verður í Grindavík 19. ágúst og munum við sjá alla Suðurnesjamennina þrjá etja þar kappi við fjölda ökuþóra.