GUNNAR Á TRÚÐNUM ANNAR Í STAPAFELLI
Torfærukeppni, á vegum Mótorsports, fór fram í Stapafelli um helgina. Keppnin fór fram í sól og blíðu og fjölmargir Suðurnesjamenn lögðu leið sína á keppnina og börðu jeppatröllin og ökumenn þeirra augum. Eins og alltaf voru tilþrif ökumanna stórfengleg en af okkar mönnum var Gunnar Gunnarsson á trúðnum fremstur meðal jafningja og náði öðru sætinu í götubílaflokki. „Það munaði aðeins 25 stigum á mér og Gunnari Pálma og 35 stig í næsta mann þannig að þetta var mjög jafnt“ sagði Gunnar að keppninni afstaðinni. „Svona til að gefa innsýn í hve lítið þetta var þá voru þessi 25 stig er samsvarandi einni bíllengd í 4. þrautinni.“Páll Antonsson náði 5. sæti í keppni sérútbúinna en þeir Elmar Þór og Gísli G. voru talsvert frá toppsætunum.