Gummi Steinars tekur fram skóna á ný
Leikja – og markahæsti leikmaður Keflvíkur í efstu deild í fótbolta frá upphafi, Guðmundur Steinarsson dró fram takkaskóna á nýjan leik í vikunni. Hinn 37 ára gamli Guðmundur er nú þjálfari Njarðvíkinga en hann lék síðast með liðinu í ágúst á síðasta ári. Hann hefur ekkert leikið í sumar og því má ætla að hann hafi verið hættur knattspyrnuiðkun.
Hann hefur nú söðlað um og hefur samið við annað félag í Reykjanesbæ. Það mun vera utandeildarfélagið Keppnis sem leikið hefur í utandeildinni frá árinu 2005. Guðmundur reimaði á sig skóna í vikunni og lék sinn fysta leik með liðinu í bikarleik gegn Landsliðinu, sem lauk með 3-2 sigri Keppnismanna. Guðmundur náði ekki að skora að þessu sinni en samkvæmt heimildum Víkurfrétta var hann besti maður vallarins, lagði upp mark og bjargaði m.a. á línu.