Gummi Braga: „Ryan gæti ráðið úrslitum“
Það er stór íþróttahelgi framundan fyrir Suðurnesjamenn. Tvö lið af Suðurnesjum leika til úrslita í Powerade-bikar KKÍ í dag. Grindavík leikur gegn Stjörnunni í karlaflokki og Keflavík mætir Val í kvennaflokki. Víkurfréttir ætla að hita upp fyrir leikina og hafa viðað að sér spám frá nokkrum aðilum tengdum körfubolta á svæðinu.
Grindvíkingurinn Guðmundur Bragason veit vel hvað þarf til að sigra í bikarúrslitum enda varð hann bikarmeistari með Grindvíkingum á sínum tíma. Hann þjálfar í dag kvennalið Grindavíkur. Við fengum hann til að spá fyrir um úrslit í leikjunum í dag.
Grindavík-Stjarnan: Ég hef trú á að mínir menn í Grindavík taki bikarinn í hörkuleik og tryggi um leið rífandi stemmingu á þorrablótinu um kvöldið. Þeir hafa verið að vinna undanfarna leiki þó þeir hafi ekki alltaf spilað vel. Það er karakter í liðinu og breiddin góð sem skiptir máli í bikarúrslitaleikjum.
Keflavík-Valur: Ég geri ráð fyrir að Keflavík vinni þennan leik nokkuð sannfærandi.
Hvað mun ráða úrslitum í þessum leikjum?
Í báðum leikjum skiptir miklu máli hvernig leikmenn koma stemmdir varnarlega og oftast vinnur það lið sem frákastar betur. Kanarnir skipta einnig miklu máli og hverning þeir höndla að spila fyrir framan fulla Laugardagshöll.
Þegar maður hugsar tilbaka þá vinnur oftast það lið hjá körlunum sem fær meira framlag frá bakvörðunum. Útkoma einvígis Shouse og Zammy mun því skipta miklu um úrslit karlaleiksins.
Það mun ráða úrslitum hjá Keflavík hversu vel þeim gengur að stöðva þríeykið Butler, Kristrúnu og Guðbjörgu.
Sérðu fyrir þér einhverja sem munu leika sérstaklega vel í leikjunum? Einhver sem vert er að fylgjast sérstaklega með?
Lalli, Jóhann og Siggi hafa spilað vel í vetur og ég vona að þeir finni fjölina á laugardaginn. Það hefur verið stígandi hjá Óla Óla að undanförnu og kom sterkur af bekknum í síðasta leik. Þegar Óli er rétt stemmdur þá gerast oft ansi magnaðir hlutir!
Hjá stelpunum verður gaman að fylgjast með Söru Rún en hún hefur spilað mjög vel í vetur.
Hvar liggur munurinn á liðunum?
Ég hef trú á að Ryan geti orðið munurinn hjá karlaliðunum. Hann berst alltaf eins og enginn sé morgundagurinn og svo er vítastrokan að batna með hverri vikunni eftir að Eyfi fór að vinna með honum! Breiddin hjá Grindavík er líka meiri tel ég.
Hjá stelpunum liggur munurinn helst í breiddinni en Keflavík er með meiri breidd en Valur. Einnig hef ég fulla trú á að Keflavík geti haft mikla yfirburði í stúkunni miðað við mætingu á leiki að Hlíðarenda.