Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Gulir og glaðir úr fallsæti
Föstudagur 7. ágúst 2009 kl. 13:22

Gulir og glaðir úr fallsæti



Það var gleði sem skein úr andlitum Grindvíkinga eftir að þeir unnu frækinn sigur á Valsmönnum á Grindavíkurvelli í gær. Lokatölur urðu 3-1 fyrir heimamenn við erfiðar aðstæður en mikill vindur og rigning setti mark sitt á leikinn.


Grindvíkingar hófu leik undan vindinum og þeir voru fljótir að láta að sér kveða. Scott Ramsey tók hornspyrnu sem að lokum endaði fyrir fótum Boga Rafns Einarssonar sem náði að ýta boltanum yfir línuna og koma heimamönnum yfir í leiknum. Fyrsta mark Boga í efstu deild og kærkomið þar sem hann heldur á næstu dögum erlendis í nám. Páll Guðmundsson skoraði einnig sitt fyrsta mark í efstu deild á 16. mínútu þegar hann skallaði boltann fimlega í markið eftir góða sendingu frá Scott Ramsey sem fór hamförum í sóknarleik Grindvíkinga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þrátt fyrir góðar tilraunir heimamanna var staðan 2-0 í hálfleik en Valur náði að skora mark sem dæmt var af vegna rangstöðu. Valur mætti ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og náði að brjóta ísinn á 60. mínútu þegar Atli Sveinn Þórarinsson skoraði eftir hornspyrnu. Fór þá um áhorfendur Grindvíkinga en lék liðið á móti sterkum vindi.

Grindvíkingar blésu hins vegar til sóknar og uppskáru gott mark á 80. mínútu eftir laglega sókn. Scott Ramsey náði að prjóna sig í gegnum vörn Valsmanna hægra megin og átti skot sem Kjartan Sturluson varði vel í marki Vals. Hann náði hins vegar ekki að halda boltanum og Gilles Mbang Ondo var réttur maður á réttum stað og gulltryggði heimasigur Grindvíkinga. Þetta er sjötta mark Ondo í deildinni í sumar en hann hefur alls skorað níu mörk í deild og bikar.


Grindvíkingar fögnuðu vel í leikslok enda komust þeir upp úr fallsæti með sigrinum. Þeir eru nú með 15 stig eftir 14 leiki í 9. sæti deildarinnar en næsti leikur liðsins er mjög mikilvægur. Þá leika þeir gegn Þrótti R. á Valbjarnavelli í fallslag og fer leikurinn fram n.k. sunnudag kl. 19.15.


Staðan í deildinni


VF-Myndir/Hilmar Bragi