Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Guðný: Fjölnir bakkar og beitir skyndisóknum
Þriðjudagur 21. ágúst 2007 kl. 09:52

Guðný: Fjölnir bakkar og beitir skyndisóknum

Tveir leikir fara fram í undanúrslitum VISA bikarkeppni kvenna í knattspyrnu í kvöld. Báðir leikirnir hefjast kl. 18:00. Keflavík tekur á móti Fjölni á Keflavíkurvelli og Breiðablik mætir KR á Kópavogsvelli. Þau lið sem tryggja sér sigur í kvöld mætast í úrslitaleik VISA bikarsins á Laugardalsvelli þann 22. september næstkomandi.

 

Liðin hafa einu sinni mæst í deildinni í sumar og þar höfðu Fjölniskonur betur á heimavelli 1-0. Guðný Petrína Þórðardóttir hefur verið töluvert frá sökum meiðsla aftan í læri en hún sagði í samtali við Víkurfréttir að vonast væri til þess að hún kæmist aftur á fullt eftir um þrjár vikur.

 

,,Það gengur illa að vinna á meiðslunum og ég er mjög bólgin í öðru aftanverðu lærinu,” sagði Guðný sem kom inn á sem varamaður á dögunum gegn Íslandsmeisturum Vals en sagði að það hefði gengið brösuglega að beita sér. ,,Það eru þó gleðitíðindi að Björg Ásta verður með í kvöld þar sem hún er búin að vera að glíma við meiðsli en hún fer í myndatöku í dag til að staðfesta hvort hún sé kviðslitin eða ekki.”

 

Guðný hefur verið á varamannabekknum hjá Keflavík að undanförnu og fylgst með lisfélögum sínum í baráttunni. ,,Ég er búin að komast að því að það getur verið meira stressandi að vera á bekknum heldur en inni á vellinum,” sagði Guðný hress í bragði. Hún þykist nokkuð viss um hvernig bolta Fjölniskonur muni leika í kvöld. ,,Þær munu örugglega bakka og reyna að beita skyndisóknum. Við verðum að standa okkur og gera betur en þegar liðin mættust síðast,” sagði Guðný.

 

Kvennalið Keflavíkur hefur aðeins einu sinni komist í bikarúrslitaleikinn en það gerðist árið 1991 þegar ÍBK var og hét. Þá mættust ÍBK og ÍA þar sem Skagakonur höfðu öruggan 6-0 sigur. Vinni Keflavík leik sinn í kvöld verður það í annað sinn í sögu Keflavíkur sem liðið kemst í úrslitaleik bikarkeppninnar.

 

[email protected]

 

VF-mynd/ Jón Björn - Guðný í leik gegn Þór/KA fyrr í sumar. Það er mikill missir fyrir Keflavík að hafa Guðnýju ekki í framlínunni enda mikill markahrókur. Systir Guðnýjar, Björg Ásta, verður með í kvöld en hún hefur verið frá sökum meiðsla. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024