Guðmundur vildi ekki þjálfarastarfið
Forsvarsmenn körfuknattleiksdeildar Grindavíkur leita nú að öðrum þjálfara í stað Friðriks Ragnarssonar, sem ákvað að endurnýja ekki samning sinn við félagið. Einn þeirra sem leitað hefur verið til er Guðmundur Bragason, sem átti glæstan feril sem leikmaður liðsins um árabil. Guðmundur hins vegar afþakkaði boðið þar sem hann á annríkt á öðrum vettvangi.
„Við erum að kasta nöfnum á milli okkar þessa dagana og erum opnir fyrir öllu. Útlendingur gæti jafnvel komið til greina," segir Magnús Andri Hjaltason, formaður deildarinnar við Fréttablaðið í morgun.
Mynd – Guðmundur Bragason er einn reynslumesti miðherjinn í sögu körfuknattleiks á Íslandi.