Guðmundur Steinarsson, Keflavík, valinn besti leikmaðurinn
Í dag voru veittar viðurkenningar fyrir fyrstu sjö umferðirnar í Landsbankadeild karla og fór athöfnin fram í höfuðstöðvum KSÍ. Guðmundur Steinarsson úr Keflavík var valinn besti leikmaður þessara umferða og þjálfari hans, Kristján Guðmundsson, var valinn þjálfari umferðanna.
Keflvíkingar hlutu einnig stuðningsmannaverðlaunin fyrir umferðir 1 - 7. Pumasveitin fékk viðurkenningu fyrir sitt framlag 100.000 króna ávísun frá Landsbankanum sem rennur til unglingastarfs Keflavíkur.
Keflavíkingar í úrvalsliði umferðanna voru: Guðjón Árni Antoníusson, Hallgrímur Jónasson og Guðmundur Steinarsson einnig var Scott Ramsay frá Grindavík valinn í liðið.
Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflavíkur, hlaut afgerandi kosningu sem leikmaður umferðanna og Kristján Guðmundsson, þjálfari, einnig.
Stuðningsmenn Keflvíkinga, Puma-sveitin, hefur staðið þétt við bakið á sínu liði í fyrstu umferðunum og eru vel að stuðningsmannaverðlaununum komnir. Keflvíkingar hafa sýnt stuðning sinn í verki, komið prúðmannlega og drengilega fram og verið félagi sínu til mikils sóma, segir á vef KSÍ. www.ksi.is
VF-mynd/Þorgils