Guðmundur skoraði frá miðju í sigri Keflvíkinga
Keflvíkingar nældu sér í mikilvæg stig í baráttunni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Keflvíkingar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Framara í Laugardalnum með tveimur mörkum gegn engu.
Frans Elvarsson kom Keflvíkingum á bragðið með marki strax á 7. mínútu og svo var komið að þætti Guðmundar Steinarssonar. Þegar 20 mínútur voru liðnar tók Guðmundur upp á því að láta vaða frá miðju vallarins og boltinn sveif yfir markmann Framara sem stóð full framarlega. Glæsilegt mark hjá Guðmundi sem er óðum að finna sig.
Í síðari hálfleik gerðist svo lítið markvert og sterkur sigur hjá Keflvíkingum staðreynd.
Mynd: Guðmundur Steinarsson skoraði eitt af mörkum sumarsins.