Guðmundur Rúnar og Karen meistarar hjá GS
Guðmundur Rúnar Hallgrímsson vann öruggan sigur á meistaramóti Golfklúbbs Suðurnesja sem lauk nú fyrir stuttu. Guðmundur gerði sér lítið fyrir og jafnaði vallarmetið á 4 hringjum sem Örn Ævar á og endaði á 11 höggum undir pari. Örn Ævar Hjartarson sem sigrað hefur tíu sinnum varð annar og mátti sín lítils gegn snilldartöktum Guðmundar á lokahringnum. Karen Guðnadóttir sigraði í kvennaflokki.
Það var nett spenna í loftinu fyrir lokahringinn í meistaraflokki karla. Ætlaði Örn Ævar sem kom inn á besta skorinu í gær að vinna upp tveggja högga forskot Guðmundar og jafna þannig met Þorbjörn Kjærbo sem hefur tíu sinnum orðið klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja. Víkurfréttavefurinn sagði í morgun að Guðmundur Rúnar hefði einu sinni orðið meistari. Hann leiðrétti það rétt fyrir hringinn í dag við ritstjórann. „Þetta er í lagi, þú getur þá sagt í kvöld að ég verði orðinn þrefaldur meistari,“ sagði hann í léttum tón en einn titil vantaði upp á hjá Guðmundi sem vann tvö ár í röð, 2005-06.. Ritstjórinn tók hann á orðinu og nú hefur þessi leiðrétting komið fram og þeir sem þetta lesa vita nú að Guðmundur Rúnar sem lék eins og alvöru skoskir kylfingar gerðu í gamla daga, þ.e.a.s. í „kvartbuxum“, hefur nú unnið titilinn í þrígang.
Eftir fjórar holur var Guðmundur tvo undir pari og Örn einn undir, báðir léku þeir frábært golf og Örn fékk tvö högg í víti á fyrstu holu fyrir að slá út fyrir völlinn en var samt á þessu skori. En hann gerði afdrifarík mistök á 5. flöt þegar hann púttaði fjórum sinnum og tapaði tveimur höggum. Fyrir þá holu munaði 3 höggum á þeim en eftir það fimm höggum og það var of mikið fyrir Örninn að brúa. Hann náði að minnka muninn í 3 högg á 16. braut en nær komst hann ekki og Guðmundur fékk fugl á 17. braut eftir frábært innáhögg og þá var þetta búið. Hann kórónaði sigurinn með glæsilegum fugli á síðustu brautinni og endaði hringina fjóra eins og fyrr segir á 11 höggum undir pari. Atli Elíasson sem var í þriðja sæti fyrir lokahringinn missti það í hendur Davíðs Jónssonar sem endaði á 2 undir í heildina. Mjög gott skor var hjá efstu mönnum en fjórir efstu voru undir 290 höggum og það hefur ekki gerst áður.
Karen Guðnadóttir vann öruggan sigur í kvennaflokki og Jón Jóhannsson vann í fyrsta flokki karla þar sem margir ungir kylfingar bættu forgjöf sína mikið með góðu golfi í vikunni.
Meistaraflokkur karla
1. Guðmundur Rúnar Hallgrímsson 69-68-72-68 (277)
2. Örn Ævar Hjartarson 72-72-67-71 (282)
3. Davíð Jónsson 70-73-73-70 (286)
4. Atli Elíasson 70-72-72-75 (289)
Meistaraflokkur kvenna
1. Karen Guðnadóttir 322
2. Heiður Björk Friðbjörnsdóttir 355
1. flokkur karla
1. Jón Jóhannsson 301
2. Guðni Friðrik Oddsson 306
3. Hafliði Már Brynjarsson 307
2. flokkur karla
1. Björn Einarsson 326
2. Kristján Árni Jakobsson 330
3. Jón Gunnarsson 333
3. flokkur karla
1. Arnar Þór Smárason 349
2. Bjarni H. Lúðvíksson 353
3. Andri Þór Skúlason 357
4. flokkur karla
1. Freyr Guðmundsson 376
2. Freyr Bjarnason 382
3. Gissur H. Þórðarson 384
5. flokkur karla
1. Einar B. Bjarkason 396
2. Ragnar G. Albertsson 417
3. Róbert M. Vilhjálmsson 427
1. flokkur kvenna
1. Erla Þorsteinsdóttir 239
2. Helga Sveinsdóttir 271
3. Elín Gunnarsdóttir 279
2. flokkkur kvenna
1. Guðný Sigurðardóttir 286
2. Hulda B. Birgisdóttir 300
3. Íris Dögg Steinsdóttir 301
3. flokkur kvenna
1. Ásta P. Hartmannsdóttir 455
2. Karitas Sigurvinsdóttir 497
Kvennaflokkur 65 ára og eldri
1. Gerða Halldórsdóttir 318
2. Hulda Guðmundsdóttir 329
3. Sigríður Guðbjörnsdóttir 354
Karlar 70 ára og eldri
1. Guðmundur R. Hallgrímsson 270
2. Sigurður Friðriksson 275
3. Jónas Þórarinsson 298
Karlar 55-69 ára
1. Þorsteinn Geirharðsson 227
2. Júlíus Jón Jónsson 241
3. Elías Kristjánsson 242
Drengir 14-15 ára
1. Grétar Helgason 358
2. Unnar G. Einarsson 383
3. Unnar Þór Benediktsson 396
Drengir 13 ára og yngri
1. Björgvin V. Færseth 166
2. Samúel K. Friðjónsson 188
3. Jóhannes S. Ásgeirsson 199
Mikil veðurblíða var alla meistaramótsvikuna, svo mikil að menn muna ekki annað eins í sögu GS.
Sigurvegar verða krýndir í lokahófi mótsins í golfskálanum í Leiru í kvöld þar sem allir eru velkomnir.
Guðmundur Rúnar fagnar sigri eftir glæsilegt golf, 11 högg undir pari á 72 holum. Örn Ævar sem varð annar, klappar fyrir félaga sínum.
Karen Guðnadóttir varð klúbbmeistari kvenna.
Jón Jóhannsson vann sigur í 1. flokki karla eftir mjög gott golf en hann lék á einu undir pari í dag.
Sigurður Jónsson, mótsstjóri og meistaraflokkskylfingur var flottur í tauinu í dag eins og reyndar Guðmundur Rúnar eins og sjá má á efstu mynd en þar er hann að slá á 5. teig.
Klúbbmeistarar GS 2009, Guðmundur Rúnar Hallgrímsson og Karen Guðnadóttir.