Guðmundur Rúnar meistari í níunda sinn
Guðmundur Rúnar Hallgrímsson og Karen Guðnadóttir urðu klúbbmeistarar Golfklúbbs Suðurnesja. Guðmundur sigraði í níunda sinn og sigur Karenar var sá áttundi. Guðmundur stefnir að því að ná Erni Ævari Hjartarsyni sem hefur sigrað tólf sinnum en Þorbjörn Kjærbo, fyrir Íslandsmeistari GS, varð tíu sinnum klúbbmeistari. Karen Guðnadóttir getur á næsta ári jafnað við nöfnu sína Sævarsdóttur sem níu sinnum hefur unnið titilinn í Leiru.
Guðmundur fékk harða keppni frá Björgvini Sigmundssyni en að lokum munaði sjö höggum á þeim. Guðmundur lék á 4 höggum yfir pari en aðstæður voru frekar erfiðar í Leirunni þar sem veðurguðirnir voru ekki sérstaklega góðu skapi. Þriðji varð Davíð Jónsson á 315 höggum en á sama skori var Róbert Smári Jónsson og höggi á eftir Guðni Vignir Sveinsson.
Karen Guðnadóttir sigraði örugglega í kvennaflokki á 306 höggum en önnur varð Laufey Jóna Jónsdóttir á 336. Korpak systurnar efnilegu tóku ekki þátt í mótinu þar sem þær fóru með U18 stúlknalandsliðinu á Evrópumót í Póllandi.
Hjá Golfkúbbi Sandgerðis var hart barist um sigurinn í öllum flokkum en klúbbmeistarar urðu þau Pétur Þór Jaidee og Milena Medic.
Pétur lék mjög stöðugt golf og kom inn á 296 höggum og var sex höggum á undan Svavari Grétarssyni. Þriðji varð Erlingur Jónsson á 313 höggum.
Milena lék 54 holurnar í 304 höggum, Steinunn Jónsdóttir varð önnur á 343 höggm og þriðja Katrín Benediktsdóttir á 368.
Hjá Golfkúbbi Vatnsleysustrandarhrepps sigraði Adam Örn Stefánsson í meistaraflokki karla en hann lék 72 holurnar á 297 höggum. Jóhann Sigurðsson varð annar á 301 og Guðbjörn Ólafsson þriðji á 304. Sigurdís Reynisdóttir sigraði í opnum kvennaflokki og lék á 272 höggum, Guðrún Egilsdóttir varð önnur á 280 og Oddný Þ. Baldvinsdóttir á 297.
Klúbbmeistarar Golfklúbbs Sandgerðis 2017, Pétur og Milena.