Guðmundur og Elísabet Ester best hjá Keflavík
Guðmundur Steinarsson og Elísabet Ester Sævarsdóttir voru kjörin leikmenn ársins hjá Keflavík í lokahófi knattspyrnudeildar í gærkvöldi. Mikill fjöldi fólks sótti hófið og stemmningin góð þrátt fyrir svartan laugardag í síðustu viku þegar Keflavík henti frá sér Íslandsmeistaratitlinum í lokaumferðinni.
Forráðamenn deildarinnar verðlaunuðu og þökkuðu mörgum aðilum á lokahófinu og voru bjartsýnir þrátt fyrir dapran endi hjá körlunum og frekar dapurt ár hjá kvenfólkinu.
Auk bestu leikmanna voru útnefndir efnilegustu leikmennirnir Jón Gunnar Eysteinsson og Guðrún Ólöf Olsen.
Knattspyrnudeildin afhenti fréttagyðju Keflavíkur og nú hlaut Stöð2 sport hana fyrir mjög skemmtilega umfjöllun um knattspyrnuna í sumar en Víkurfréttir hlutu gyðjuna í fyrra. Magnús Gylfason, annar tveggja spekinga Stöðvar 2 sports tók á móti viðurkenningunni og sagði að Keflavík hefði leikið vel í sumar og hefði að margra mati átt að hljóta titilinn.
Mynd efst:
Guðmundur Steinarsson og Elísasbet Ester Sævarsdóttir voru kjörin bestu leikmenn Keflavíkur 2008. Þau eru hér með Þorsteini Magnússyni, formanni knattspyrnudeildar og Birgi Runólfssyni frá Nesprýði, einum stærsta styrktaraðila liðsins.
Mynd: Jói drummer og félagar hans í Puma stuðningssveitinni sungu og hvöttu Keflvíkinga áfram nú sem aldrei fyrr – Ef þú fílar Keflavík þá „gemmér“ klapp…
Mynd: Keflavíkurstúlkur á lokahófinu en þær völdu Ingu Láru Jónsdóttur sem Besta félagann.
Myndir-VF/Páll Ketilsson