Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Guðmundur Mete í Keflavík næstu þrjú ár
Þriðjudagur 20. september 2005 kl. 12:05

Guðmundur Mete í Keflavík næstu þrjú ár

Varnarmaðurinn Guðmundur Viðar Mete skrifaði undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Keflavíkur í gær.

Guðmundur, sem kom til liðsins um mitt sumar og gjörbreytti varnarleik liðsins til hins betra sagði í samtali við Víkurfréttir að hann hefði fulla trú á liðinu og hlakkaði til að eiga þátt í uppbyggingunni sem væri í gangi hjá Keflavík.

Þegar Guðmundur kom til Íslands var ljóst að um mikinn feng væri að ræða fyrir Keflvíkinga enda var Guðmundur lengi í röðum sænska stórveldinsins Malmö FF, en þar kynntist hann Ómari Jóhannssyni, markverði Keflavíkur.
„Ég hef þekkt Ómar lengi og eins Kristján þjálfara sem var með yngri flokkana hjá Malmö á sínum tíma og þess vegna var ekki erfið ákvörðun fyrir mig að koma til Keflavíkur. Ég hef trú á þessu efnilega liði og með nokkrum góðum leikmönnum í viðbót eigum við að geta náð lengra.“

Guðmundur lék með Nörrköping áður en hann lenti í langvinnum meiðslum og er hann að ná sér upp úr þeim og verður efalaust enn betri næsta sumar þegar hann verur komin í fulla leikæfingu. Hann sagðist alls ekki líta á það sem skref niður á við að fara til Íslands úr atvinnumennskunni. „Alls ekki. Ég hef alls ekki gefið atvinnumennskuna upp á bátinn, en ég hef mun betri möguleika á að vekja athygli á mér með Keflavík heldur en í 1. deildinni í Svíþjóð.“

Rúnar V. Arnarson, formaður knattspyrnudeildarinnar, sagðist afar hreykinn af því að vera búinn að tryggja liðinu krafta Guðmundar, enda hafi varnarleikur liðsins verið viðvarandi vandamál síðustu ár. „Ég líki þessum samningi við það þegar við fengum Stefán Gíslason til okkar á sínum tíma. Hann kom til okkar og blómstraði hreinlega og mér finnst Guðmundur hafa alla möguleika á því.“

Hvað gengi liðsins í sumar varðar sagði Rúnar að þrátt fyrir ágætan árangur væri stefnt enn hærra á næstu árum. „Við setjum markið enn ofar. Í sumar vorum við ekki komnir með fullmannaðan hóp fyrr en um miðja leiktíð og endum samt í fjórða sæti, en nú munum við fara að vinna í því að styrkja liðið.“

Rúnar sagði að nokkrir leikmenn yrðu látnir fara og taldi hann m.a. ólíklegt að Issa Kadir, Branko Milicevic yrðu áfram auk þes sem Michael Johannsson sneri aftur til Örgryte þaðan sem hann kom sem lánsmaður.

Hvað varðar þjálfaramál eru samningaviðræður við Kristján Guðmundsson farnar í gang og virðist sem gagnkvæmur áhugi sé fyrir áframhaldandi samstarfi. Það skýrist þó á næstu vikum.

Aðsókn á leiki Keflavíkur jókst nokkuð í sumar, eða úr 830 upp í 989 að meðaltali á hvern leik, en forráðamenn Kelavikur þakka það bættri umgjörð um leiki, m.a. með tilkomu Fjölskylduklúbbsins og fleiri stuðningsmannahópa.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024