Guðmundur hættir og Wise á förum
Tíðindi úr herbúðum Grindvíkinga
Guðmundur Bragason mun ekki halda áfram sem aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki karla hjá Grindavík í körfuboltanum. Eins liggur ljóst fyrir að Eric Wise mun leika sinn síðasta leik með liðinu gegn Haukum í kvöld en hann er að semja við lið í Suður-Kóreu. Karfan.is greinir frá en þar má sjá tilkynningu frá Grindvíkingum sem lesa má hér að neðan.
„Sökum mikilla anna í vinnu hefur Guðmundur Bragason tilkynnt Stjórn Kkd UMFG að hann geti ekki haldið áfram sem aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki karla. Þó þetta sé vissulega áfall fyrir okkur þá sýnum við Gumma að sjálfsögðu fullann skilning og höldum áfram, við erum jú vissulega með part af honum liðinu! Gummi mun þó öskra liðið áfram úr stúkunni þegar hann getur og aðstoða lítið eitt við það sem upp getur komið. Við viljum þakka Gumma fyrir það sem liðið er af tímabilinu og óskum honum að sjálfsögðu alls hins besta.
Og ekki eins og þetta sé nóg af fréttum héðan úr Grindavíkinni en þá kom það upp nú fyrir skömmu að lið frá S- Kóreu sýndi því mikinn áhuga á að fá Eric nokkurn Wise til sín en fyrir þá sem ekki vita þá er hann kaninn okkar. Þegar svona kemur upp er ákaflega lítið sem lið frá Íslandi geta gert þar sem þetta er gríðarlegt tækifæri fyrir hans feril og nokkurn veginn vonlaust að koma í veg fyrir að hann yfirgefi skútuna. Það er nokkuð ljóst að leikurinn í kvöld gegn Haukum verður hans síðasti fyrir okkar lið en við reiknum með að hann gefi allt í þann leik og haldi svo á vit ævintýranna í nálægð við hinn mikla mann Kim Jong Il. Þetta er auðvitað afar slæmt fyrir okkur og leit að nýjum kana er á fullu gasi en það verður að segjast að við erum orðin ýmsu vön hérna síðastliðin ár og brosum útí annað. Markmiðin erum óbreytt og staðreyndin er sú að það sem ekki drepur þig, herðir þig. Við trúum því!“