Guðmundur Bragason rifjar upp gamla takta með ÍG
Leikur ÍG og Ármanns um helgina fór rólega af stað og staðan eftir fyrsta leikhluta var 16-17 og bæði lið að spila þokkalega. Jafnræði með liðunum hélt áfram í öðrum leikhluta þar sem mun meiri áhersla var á varnarleik en sóknarleik og var því mjög lítið skorað. Staðan í hálfleik var 31-30 fyrir ÍG og var reynsluboltinn Guðmundur Bragason stigahæstur hjá ÍG með 9 stig en hjá Ármann var Snorri Páll Sigurðsson komin með 11 stig.
Seinni hálfleikur var jafn en ÍG menn voru þó alltaf skrefi á undan Ármann og leiddu á tímabili með 6 stigum en um lok 3ja leikhluta náði Ármann góðum kafla og á stuttum tíma breyttu þeir stöðunni úr 44-38 fyrir ÍG yfir í 47-50 fyrir Ármann og 2mínútur eftir af 3ja leikhluta. Þá tók Orri Freyr Hjaltalín, fótboltamaður, til sinna ráða og skoraði góða and-1 körfu og setti vítið niður, Ármann tapar boltanum og Ásgeir Ásgeirsson skorar fyrir ÍG og aftur er það and-1 karfa. ÍG menn kláruðu svo leikhlutann af krafti og leiddu 59-52 í lok 3ja leikhluta.
Fjórði leikhluti var skemmtilegur og fjörugur og reyndu leikmenn Ármanns af öllum krafti að minnka muninn og komast aftur inn í leikinn en ÍG-menn héldu þeim ávallt um 8-12 stigum frá sér og kláruðu leikinn með öruggum sigri 83-74.
Það munar um minna fyrir ÍG-menn að Guðmundur Bragason hafi dregið fram skóna á ný fyrir tímablið. Hinn 44 ára gamli miðvörður hirti 16 fráköst og skoraði 21 stig í leiknum. Verst er fyrir liðið að vegna annarra verkefna spilar hann fyrst og fremst heimaleiki liðsins. Í dag vantaði einnig í liðið Helga Jónas Guðfinnsson sem spilaði með í fyrsta heimaleik ÍG en líkt og Guðmundur Bragason getur hann ekki verið með í öllum leikjum.
ÍG-menn eru nú í 3-5 sæti deildarinnar með 2 sigra og 1 tap og taplausir á heimavelli meðan Ármann er í 6-8 sæti í deildinni með 1 sigur og tvö töp.
Hjá ÍG leiddu Haraldur Jón Jóhannesson (23 stig) og Guðmundur Bragason (21 stig og 16 fráköst) ÍG-menn áfram í dag auk þess sem Ásgeir Ásgeirsson (12 stig og 8 fráköst) og Hilmar Hafsteinsson (11 stig) stóðu sig mjög vel.
Hjá Ármann var Snorri Páll Sigurðsson yfirburðamaður með 32 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar en næstur honum í stigum var Pétur Þór Jakobsson með 11 stig og Illugi Auðunsson með 10 stig.
Karfan.is