Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Guðjón Þórðar orðaður við Grindavík
Mánudagur 20. september 2004 kl. 11:55

Guðjón Þórðar orðaður við Grindavík

Guðjón Þórðarson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í knattspyrnu hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá liði Grindavíkur fyrir næstu leiktíð.

Þetta kemur fram í grein í DV í dag, en Ingvar Guðjónsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildarinnar segist ekki vita hvaðan þær fréttir koma. „Þeir hafa þetta allaveganna ekki frá okkur,“ sagði Ingvar í samtali við Víkurfréttir. „Við vorum bara að klára mótið hjá okkur í gær og verðum með lokahóf um næstu helgi. Við setjumst bara niður í vikunni og skoðum þessi mál , en það væri alls ekki slæmt að fá hann.“

Ingvar bætti því við að þeir væru ekki með neinn sérstakan þjálfara í sigtinu, en þessi mál myndu vonandi skýrast á næstu tveimur vikum.

Guðmundur Valur Sigurðsson stýrði liðinu í síðustu átta leikjum deildarkeppninnar og náði ágætis árangri. Undir hans stjórn tapaði liðið einungis tveimur leikjum, gerði þrjú jafntefli og vann þrjá leiki.

Zeljko Sankovic var látinn taka pokann sinn eftir 10 leiki en þá höfðu þeir aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum sínum.

Grindavík bjargaði sér frá falli með góðum útisigri á Keflavík á dögunum, en sjöunda sætið er eflaust ekki í takt við væntingar á þeim bænum. Guðjón hefur verið að leita fyrir sér víða að undanförnu og hefur verið talið líklegt að hann taki við KR, en frammistaða þeirra í ár var alls ekki sannfærandi. Þeir lentu í sjötta sæti með jafnmörg stig og Grindavík en með betra markahlutfall.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024