Guðjón ráðinn þjálfari UMFG
Guðjón Þórðarson hefur verið ráðinn þjálfari liðsins til næstu þriggja ára en UMFG var að senda tilkynningu þess efnis nú síðla kvölds.
Eins og fram hefur komið ákvað þáverandi formaður knattspyrnudeildar UMFG, Þorsteinn Gunnarsson að hætta sem formaður þar sem hann var á móti ráðningu hans. Aftur varð fjaðrafok í kringum deildina í vikunni þegar Jónas Þórhallsson, sem tók við formennsku í deildinni af Þorsteini greindi frá rúmlega tuttugu milljóna kr. tapi á deildinni á árinu. Þorsteinn sagði það aðför að sér. Jónas hefur sagt að nú verði stefnt á Íslandsmeistaratitilinn.
Guðjón, sem er 56 ára gamall, þjálfaði 1. deildarlið BÍ/Bolungarvíkur á nýliðnu keppnistímabili en var sagt upp störfum þar fyrir skömmu af fjárhagsástæðum. Guðjón hefur áður þjálfað Skagamenn, KR og KA hér á landi ásamt því að stýra Keflvíkingum í nokkra mánuði á undirbúningstímabili.
Í Englandi hefur Guðjón verið knattspyrnustjóri hjá nokkrum neðri deildarliðum eins og Stoke City sem reyndar komst í efstu deild nokkrum árum síðar, Barnsley, Notts County og Crewe. Hann var landsliðsþjálfari Íslands frá 1997 til 1999 og stýrði Start í norsku úrvalsdeildinni í nokkra mánuði.
Ljósmynd/fotbolti.net