Guðjón gefur ekkert eftir
Góð þáttaka var á stórmóti í pílukasti sem Pílufélag Grindavíkur stóð fyrir í Salthúsinu á laugardaginn. Grindavíkingar voru sterkir á heimavelli og unnu bæði í A og B úrslitunum.
Guðjón Hauksson sigraði Arnar Viktorsson í úrslitaleik í A úrslitum en Guðjón hefur nánast verið ósigrandi undanfarin misseri.
Fyrirkomulagið var þannig að eftir riðlakeppni fóru tveir efstu úr hverjum riðli í A úrslit en hinir í B úrslit. Í B úrslitum mættust Pétur Guðmundsson og Björgvin Sigurðsson í úrslitaleik og hafði Pétur betur í hörku rimmu.
Bikar var veittur fyrir fyrstu þrjú sætin í hvorum flokki ásamt verðlaunum fyrir hæsta útskot og fæstar pílur.
--
Mynd/www.grindavik.is – Guðjón Hauksson er reynslubolti í píluíþróttinni og erfiður andstæðingur.