Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Guðjón: Enginn slær þriggja stiga metið
Föstudagur 2. mars 2007 kl. 09:30

Guðjón: Enginn slær þriggja stiga metið

Vafalaust fór það vart fram hjá körfuknattleiksunnendum í gær að Marel Örn Guðlaugsson mun skrá nafn sitt á spjöld íslenskrar körfuknattleikssögu í kvöld þegar hann verður leikjahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar frá upphafi. Víkurfréttir tóku tal af Guðjóni Skúlasyni sem þangað til í kvöld hefur leikið jafn marga úrvalsdeildarleiki og Marel eða 409 talsins. Guðjón hafði litlar áhyggjur af þessu og fannst bara gaman af því að Marel tæki af honum þessa nafnbót en var fljótur að benda á annað met í sinni eigu sem seint eða aldrei verður slegið.

 

,,Það nær enginn þriggja stiga metinu mínu,” sagði Guðjón kátur við blaðamann Víkurfrétta en hann gerði alls 965 þriggja stiga körfur á ferlinum í deildarkeppninni. Næsti maður við Gujón er Teitur nokkur Örlygsson og er hann með 746 þriggja stiga körfur. Marel er reyndar á þessum topp 10 lista en hann er í áttunda sæti með 452 þriggja stiga körfur og þarf því að vera aðeins lengur í deildinni ætli hann sér að skáka Guðjóni á þessu sviði.

 

,,Met eru gerð til að brjóta þau og ég bjóst fastlega við því að einhver myndi nú á endanum ná af mér leikjametinu en ég fullyrði það hér og nú að það nær enginn af mér þriggja stiga metinu,” sagði Guðjón sem minnti að hann hefði verið á meðal fyrstu Íslendinganna til þess að gera þriggja stiga körfu í leik. ,,Ef mig minnir rétt þá kom þriggja stiga línan inn í leikinn árið 1983 eða sama ár og ég hóf leik í úrvalsdeild og það getur vel verið að ég hafi skorað eina af fyrstu þriggja stiga körfunum,” sagði Guðjón.

 

Víkurfréttir fengu Íslandsmeistarann í þriggja stiga skotum til þess að tjá sig lítið eitt um Marel en þeir Guðjón léku á tíma saman hjá Grindavík. ,,Marel skorar ekki jafn mikið og hann gerði en hann var hávaxinn miðað við bakvörð og var mikil þriggja stiga skytta. Hann er frábær félagi og iðinn við kolann og flott þegar menn ná svona stórum áföngum. Hin síðari ár í boltanum hefur hann verið að sinna varnarhlutverkinu meira og hann hlýtur að hafa gaman af þessu víst hann er ennþá að. Það er góður félagsskapur að vera í körfubolta og það hefur oft verið galli hvað menn hætta snemma en sem betur fer endast menn aðeins lengur í dag og Marel er vel að leikjametinu kominn,” sagði Guðjón.

 

Aðspurður hvort Guðjón ætlaði ekki að taka fram skónna að nýju og freista þess að endurheimta leikjametið sagði hann: ,,Það er mjög ólíklegt að ég sjáist aftur með meistaraflokk á gólfinu. Ég hef hvorki tíma né þrek í það eins og staðan er í dag,” sagði Guðjón en það gæti verið að við myndum sjá Guðjón aftur í úrvalsdeildarleik og þá aðeins ef einhver kemst hættulega nærri þriggja stiga metinu hans.

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024