Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Guðjón dæmir í fyrstu atvinnumannakeppni Svía í 37 ár
Fimmtudagur 25. janúar 2007 kl. 14:46

Guðjón dæmir í fyrstu atvinnumannakeppni Svía í 37 ár

Hnefaleikaforsprakkinn Guðjón Vilhelm Sigurðsson frá Keflavík mun á laugardag vera einn fjögurra dómara í fyrstu atvinnumannakeppni Svía í hnefaleikum í 37 ár. Íþróttin hefur síðustu 37 ár verið bönnuð í Svíþjóð og segir Guðjón það mikinn heiður að hafa verið beðinn að koma út og dæma í keppninni.

 

,,Ég verð stigadómari á laugardag, í keppninni eru þrír stigadómarar og einn hringdómari,” sagði Guðjón í samtali við Víkurfréttir í dag en þá var hann nýlentur í Svíþjóð. Guðjón segir að atvinnumannahnefaleikar hafi að nýju verið leyfðir í Svíþjóð því keppni hafi um nokkurn tíma farið fram í öðrum bardagaíþróttum þar sem leyfilegt er að kýla og sparka og því hafi ríkisstjórn Svíþjóðar ekki lengur getað bannað atvinnuhnefaleika.

 

Alls fara 11 bardagar fram í Gautaborgarhöllinni á laugardag og gerir Guðjón ráð fyrir því að dagskráin taki um fjórar klukkustundir. ,,Innvigtun er á morgun og keppt á laugardag, þetta er stórviðburður hér í Svíþjóð og koma boxarar víðsvegar að til að taka þátt í keppninni,” sagði Guðjón sem er í forsvari fyrir hnefaleikafélag Reykjaness. Enn fremur sagði Guðjón að boðið væri mikill heiður og sýni að hér heima fyrir á Íslandi hafi verið haldið vel á spilunum. Þá er ráðgert að um 10 þúsund manns muni koma í Gautaborgarhöllina og fylgjast með þessum stórviðburði og sögulegri stund í hnefaleikasögu Svía.

 

VF-mynd/ úr safni - Guðjón með nemanda í boxi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024