Guðjón bjargaði stigi fyrir Keflavík
Keflvíkingar sóttu stig í Kópavoginn í kvöld í þriðju umferð Landsbankadeildar karla í knattspyrnu þegar þeir gerðu 2-2 jafntefli við Breiðablik. Að loknum þremur umferðum er Keflavík með 4 stig um miðbik deildarinnar.
Leikurinn fór rólega af stað í nepjunni á Kópavogsvelli og reyndi lítið á varnir liðanna en Guðmundur Viðar Mete var kominn á sinn stað í vörninni eftir fjarveru úr liðinu í fyrstu tveimur umferðunum vegna meiðsla. Það voru svo Kópavogsdrengir sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 9. mínútu fyrri hálfleiks þegar boltinn barst út fyrir teiginn eftir klafs í teignum, þar tók Kristján Óli Sigurðsson við knettinum og spyrnti boltanum í netið – óverjandi fyrir Ómar Jóhannsson í marki Keflavíkur. Næstu mínútur sem á eftir fóru gerðist fátt markvert utan þess að köttur nokkur sá sér leik á borði og sýndi sig á vellinum.
Um miðbik fyrri hálfleiks áttu Keflvíkingar fyrsta alvöru færið sitt. Skot utan teigs vinstra megin sem Hjörvar Hafliðason í marki Blika varði út við stöng. Keflvíkingar sóttu mikið upp kantana til að byrja með en beittu síðan löngum spyrnum upp völlinn sem skiluðu litlum árangri. Þegar um tíu mínútur lifðu eftir af fyrri hálfleik skall hurð nærri hælum hjá Blikum því Símun Samuelssen átti lúmskt skot sem hafnaði í tréverkinu á Blikamarkinu. Fyrri hálfleikur fjaraði síðan út og staðan 1-0 Blikum í vil – Kristjáni Guðmundssyni þjálfara Keflavíkur til mæðu.
Hann gerði eina breytingu á liði sínu strax í hálfleik, Guðmundur Steinarsson fór af velli og inn á í hans stað kom Þórarinn Brynjar Kristjánsson, bjargvætturinn.
Áfram hélt miðjuþófið í síðari hálfleik en Keflvíkingar voru skeinuhættari. Það var gegn gangi leiksins sem Blikar fengu vítaspyrnu á 68. mínútu. Arnar Grétarsson, fyrirliði Blika, tók spyrnuna en Ómar Jóhannsson gerði sér lítið fyrir og varði – skutlaði sér til vinstri og varði boltann út í teiginn þar sem leikmaður Breiðabliks náði ekki að koma nægilega góðu skoti á markið og Keflvíkingar fengu markspyrnu.
Keflvíkingar skiptu um leikmann á 73. mínútu þegar fyrirliðinn Jónas Guðni Sævarsson fór af velli og var það Ingvi Rafn Guðmundsson sem kom inn á og tók við fyrirliðabandinu.
Ekki leið á löngu að Keflvíkingar jöfnuðu metin. Svíinn Marco Kotilainen tók aukaspyrnu af 25 metra færi á 76. mínútu sem fór í mitt markið – staðan 1-1.
Keflvíkingar léku mun betur í síðari hálfleik svo það var gegn gangi leiksins sem Blikar skora sitt annað mark á 83. mínútu. Þar var að verki Magnús Páll Gunnarsson með skalla eftir fyrirgjöf utan af vinstri kanti, Magnús sneiddi knöttinn í fjærhornið og átti Ómar aldrei möguleika. Staðan 2-1 Breiðablik í vil.
Strax eftir markið gerir Kristján Guðmundsson síðustu skiptinguna á sínu liði. Út af fór varnarmaðurinn Branislav Milicevic fyrir sóknarmanninn Stefán Örn Arnarson og Keflvíkingar blésu til sóknar.
Á 90. mínútu náðu Keflvíkingar að jafna og þar var að verki Guðjón Árni Antoníusson. Keflvíkingar skutu knettinum að marki fyrir utan teig og fór boltinn svo af Guðjóni Árna í markið og hreyfði Hjörvar Hafliðason hvorki legg né lið. Blikar vildu meina að Guðjón Árni hafi verið fyrir innan aftasta varnarmann þeirra og því rangstæður en Kristinn Jakobsson, frábær dómari leiksins, var ekki á því og jöfnunarmarkið því staðreynd.
Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki það sem eftir lifði leiks og sanngjarnt jafntefli því staðreynd. Þjálfarar beggja liða hefðu eflaust viljað sjá þrjú stig í húsi en eins og leikurinn þróaðist mega bæði lið una vel við sitt.
Marco Kotilainen gerði sitt fyrsta mark fyrir Keflavík í Landsbankadeildinni þegar hann jafnaði 1-1. Hann var fremur fámáll eftir leik þegar blaðamaður Víkurfrétta ræddi við hann. „Ég er ekki ánægður með þessi úrslit, 2-2 jafntefli eru vonbrigði fyrir okkur. Við getum hugsanlega litið til baka á morgun og verið þakklátir fyrir þetta eina stig sem við fengum út úr leiknum því þeir komust yfir í tvígang og misnotuðu vítaspyrnu. Við getum leikið mun betur en þetta en ég er ánægður með mitt fyrsta mark í deildinni fyrir Keflavík,“ sagði Marco.
„Við ætlum að sjálfsögðu að vinna næsta leik og þoka okkur þannig upp töfluna. Við lékum vel gegn KR í fyrstu umferð og sigruðum þar. Í leiknum gegn FH á sunnudaginn var spiluðum við ágætlega en vorum óheppnir, við hefðum getað unnið þá líka með smá heppni. Í kvöld var kannski smá vanmat í gangi sökum þess að við spiluðum við KR og FH í fyrstu umferðunum sem eru almennt talin sterkari en Breiðablik. Við eigum að gera tilkall til eins af efstu sætunum í deildinni miðað við það lið sem við höfum í dag og jafnvel ógnað FH á toppnum en til þess þarf að vinna leiki og það gerðum við ekki í kvöld,“ sagði Marco markaskorari vonsvikinn í leikslok.
Hilmir Heiðar Lundevik – [email protected]