Guðjón Árni: Þolinmæði er dyggð
Bakvörðurinn öflugi Guðjón Árni Antoníusson var kátur í bragði þegar Víkurfréttir náðu af honum tali eftir 1-2 sigur Keflavíkur á HK í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í kvöld. Aðspurður hvort sigur kvöldsins hefði unnist af þolinmæði eða einföldum þjófnaði var Guðjón ekki lengi til svara.
,,Þolinmæði er dyggði sagði einhver. Við fengum fullt af færum og menn komu klárir af bekknum svo ég er þvílíkt sáttur við þennan sigur,” sagði Guðjón sem átti góðan skalla að marki HK í fyrri hálfleik en boltinn fór rétt framhjá markinu. Keflvíkingar gerðu tvö mörk í kvöld með fjögurra mínútna millibili, á 80. og 84. mínútu.
,,Gaman af því að vera komnir á toppinn og við förum í alla leiki til þess að vinna og það var virkilega gaman að vinna leikinn eftir að hafa lent undir. Við lentum undir hérna í fyrra og náðum að jafna en töpuðum samt þeim leik svo við kvittuðum fyrir leikinn í fyrra,” sagði Guðjón en svo virðist sem að Keflvíkingar séu að gera upp gamlar sakir um þessar mundir. Keflavík lá einmitt gegn HK í Kópavogi í fyrra, töpuðu gegn Val á Keflavíkurvelli og steinlágu 4-0 gegn Fylki í Árbæ. Það var sem sagt komið að skuldadögum!
,,Mete og Nicolai léku ekki með í kvöld sökum meiðsla og tveir nýjir menn komu inn í vörnina og það er alltaf erfitt en bæði Hallgrímur og Brynjar stóðu sig mjög vel og fundu sig í vörninni. Þá fengum við frábæran stuðning hér á útivelli og að heyra í Trommusveitinni hvetja okkur allan tímann gefur okkur kraft til að klára svona leiki,” sagði Guðjón Árni sæll og kátur í leikslok.
VF-Mynd/ [email protected]– Guðjón í baráttunni á Kópavogsvelli í kvöld.