Guðjón Árni samdi við FH
Guðjón Árni Antoníusson fyrirliði Keflvíkinga í Pepsi-deild karla hefur gengið til liðs við FH en hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið. Frá þessu var greint á stuðningsmannasíðu FH, fhingar.net.
Samningur Guðjóns við Keflavík rann út eftir síðasta sumarið en hann var með nýtt samningstilboð frá félaginu auk þess sem hann fór út til reynslu hjá liðum í Noregi.
Guðjón Árni hefur leikið 201 leik í deild og bikar með Keflvíkingum frá árinu 2002. Í sumar skoraði hann eitt mark í tuttugu leikjum í Pepsi-deildinni.