Guðjón Árni Antoníusson „Höfum saknað Pumasveitarinnar“
„Við reynum bara að vera ennþá jákvæðari og að ná samstöðu sem að hefur kannski vantað í síðustu leikjum.“ segir Guðjón Árni Antoníusson fyrirliði Keflvíkinga en þeir leika gegn Þórsurum á heimavelli sínum klukkan 14:00 á morgun. Keflvíkingar töpuðu síðustu viðureign sinni gegn Þór og Guðjón segir þá eiga harma að hefna. „Mér líst vel á þennan leik og krafan er sú að menn verði einbeittir í því að ætla sér að vinna þennan leik og þá verða allir sáttir.“
Guðjón segir það ábyggilega hægt að vera að velta því mikið fyrir sér ef að svo skildi fara að þeir færu niður en telur það hentugast fyrir Keflvíkinga að klára bara sinn leik og hugsa ekki um neina aðra.
Hvernig er stemningin eftir undanfarna tapleiki?
„Þetta er búin að vera frekar erfið vika, spilað þétt og við erum búnir að tapa öllum leikjunum. Í taphrinu verða menn jú pirraðir en það er einn leikur eftir og vonandi ná menn að nýta pirringinn til að klára næsta leik. Fyrir mér er þetta ósköp einfalt, menn þurfa að leggja allt til hliðar og sameinast um það eitt að vinna leikinn. Það var þvílíkur munur að spila loksins fyrir framan Pumasveitina gegn KR.
Það var auðveldara að koma inn á völlinn og standa sig. Við höfum klárlega saknað þeirra í sumar. Við sem að höfum spilað fyrir framan þá öll þessi ár finnum fyrir þessu að það vantar mikið þegar að þeir eru ekki. Við viljum svo hvetja alla Keflvíkinga sem vettlingi geta valdið til að styðja við okkur með jákvæðni á laugardaginn.