GRV hefur leik í kvöld
Keppni er hafin í 1. deild kvenna í knattspyrnu og þar tefla Suðurnesin fram einu liði þar sem Grindavík, Reynir og Víðir keppa undir fánum GRV. Fyrsti leikurinn í A-riðli 1. deildar kvenna fór fram síðastliðinn laugardag þar sem Þróttur Reykjavík skellti BÍ/Bolungarvík 13-0 en í kvöld leikur GRV sinn fyrsta leik og það á Sparisjóðsvellinum í Sandgerði en leikurinn hefst kl. 20:00.
Andstæðingarnir eru Haukar sem þykja líklegir til afreka í sumar en GRV lék líka í A-riðli 1. deildar síðasta sumar og höfnuðu þá í sjötta og þriðja neðsta sæti riðilsins með 3 sigra, 2 jafntefli og 9 tapleiki.
GRV hefur borist gríðarlegur liðsstyrkur í sóknarmanninum Ólöfu Helgu Pálsdóttur en Ólöf hefur leikið með Keflavík í Landsbankadeildinni síðustu tvö tímabil. Á heimasíðu Reynismanna segir að stefnan sé sett á úrvalsdeild og væri ekki amalegt ef það gengi eftir og tvö lið af Suðurnesjum léku í Landsbankadeild kvenna að ári.
Þjálfari GRV er Haraldur Magnússon.