Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 23. janúar 2003 kl. 13:14

Grunnskólakrökkum og foreldrum þeirra boðið í körfuboltaveislu

Keflavík leikur á morgun tvo leiki við Hauka í körfuknattleik, bæði í karla- og kvennaflokki, og fara báðir leikirnir fram í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Keflavík. Kvennaleikurinn er kl. 18:00 og strax í framhaldinu eða kl. 20:00 er karlaleikurinn. Körfuknattleiksdeild Keflavíkur ákvað við þetta tækifæri að bjóða grunnskólakrökkum boðsmiða á leikinn með því skilyrði að báðir foreldrar komi með á leikinn og fá þeir einnig frítt.Damon Johnson og Edmund Saunders, leikmenn Keflavíkurliðsins, fóru í alla grunnskóla í Keflavík og afhentu krökkunum boðsmiðana í dag sem krakkarnir taka svo með sér heim. Mikil ánægja var hjá krökkunum þegar kapparnir komu í skólana enda ekki á hverjum degi sem þeir fá slíkar stjörnur í heimsókn. Krakkarnir notuðu margir hverjir tækifærið og fengu áritun hjá köppunum ásamt því að spjalla örlítið við þá.

Þetta er því kjörið tækifæri fyrir foreldra að eiga ánægjulega stund með börnunum sínum og njóta körfubolta eins og hann gerist bestur. Búast má við hörkuleikjum og eru allir hvattir til að nýta sér þetta einstaka tækifæri.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024