Grindvískur húmor
Stinningskaldi, stuðningsmannaklúbbur knattspyrnuliðs Grindavíkur, fór á kostum í Kaplakrika á laugardaginn þegar Grindavík gerði sér lítið fyrir og lagði Íslandsmeistara FH 3-0. Eftir látlausa umræðu um svínaflensu og veikindi Grindavíkurliðsins sáu meðlimir Stinningskalda broslegu hliðina á þessu og mættu á leikinn í hvítum hlífðargalla og með andlitsgrímu til að forðast smitleiðir!
Þetta uppátæki féll í góðan jarðveg, sérstaklega hjá leikmönnum Grindavíkur sem hlógu mikið að þessu uppátæki stuðningsmannanna. Leikmenn FH höfðu ekki alveg sama húmor fyrir þessu og virtust hreinlega slegnir út af laginu, eins og kom svo í ljós í leiknum sjálfum.
Þessir myndir birtust á heimasíðu Grindavíkurbæjar en þær munu vera komnar frá knattspyrnuvefsíðunni fotbolti.net.