Grindvíkingum spáð sjöunda sæti
Vísir.is og Fótbolti.net spá Grindavík sjöunda sæti í Pepsi- deild karla í knattspyrnu í sumar. Grindavík missti markakóng sinn síðasta haust, Andra Rúnar Bjarnason í atvinnumennsku til Svíþjóðar og verður erfitt að stíga í hans spor en liðið hefur eingöngu bætt við sig tveimur leikmönnum á meðan að fimm eru farnir. Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur hefur verið að gera góða hluti með liðinu og gert það skipulagðra en áður.
Þetta kemur meðal annars fram hjá Vísir: „Hann vinnur mikið með andlega þáttinn utan vallar og virðist ná mjög vel til leikmanna sinna. Hann hefur líka mikið Grindavíkurhjarta en Óli Stefán er sá þjálfari í deildinni sem hefur spilað flesta leiki (194) og skorað flest mörk (32) fyrir liðið sem hann þjálfar. Óli Kristjáns (149-9) er næstur í röðinni.“
Fótbolti.net segir að Gunnar Þorsteinsson og Kristijan Jajalo séu lykilmenn liðsins en Gunnar er fyrirliði Grindvíkinga og hefur vaxið gríðarlega mikið síðan hann kom til félagsins frá ÍBV. Að þeirra mati er Jajalo einn allra besti markvörður deildarinnar.
„Hópurinn hjá Grindavík er ekki jafn breiður og hjá liðunum sem spáð er efstu sætunum og lítið má út af bregða í meiðslum og leikbönnum. Andri Rúnar Bjarnason skoraði 19 af 31 marki Grindavíkur í Pepsi-deildinni í fyrra og það verður hægara sagt en gert að fylla skarð hans. Grindvíkingar náðu ekki að halda stöðugleika til að blanda sér í toppbaráttuna í fyrra og liðið má ekki lenda í jafn djúpri lægð í sumar og það gerði síðari hlutann í fyrra.“
Komnir:
Aron Jóhannsson frá Haukum
Jóhann Helgi Hannesson frá Þór
Farnir:
Andri Rúnar Bjarnason í Helsingborg
Aron Freyr Róbertsson í Keflavík
Gylfi Örn Á Öfjörð í ÍR
Magnús Björgvinsson í KFG
Milos Zeravica til Borac Banja Luka