Grindvíkingar verða að vinna Njarðvík
Hreinn úrslitaleikur um annað sætið í Garðabæ
Síðasta umferð í deildarkeppni karla körfunnar fer fram í kvöld með nokkrum áhugaverðum viðureignum. Hæst ber að nefna rimmu Grindvíkinga og Njarðvíkinga en þeir fyrrnefndu berjast fyrir tilverurétti sínum í úrslitakeppninni. Keflvíkingar leika svo hreinan úrslitaleik um annað sætið gegn Stjörnunni í Ásgarði.
Í Grindavík mun Stefan Bonneau líklega mæta til leiks hjá Njarðvík eftir langvarandi meiðsli og eins mun Haukur Helgi Pálsson reima á sig skóna eftir að hafa hvílt síðustu leiki vegna meiðsla. Grindvíkingar sem munu leika án erlends leikmanns verða að sigra í kvöld og treysta á að Snæfell tapi sínum leik til þess að þeir séu tryggðir í úrslitakeppnina þar sem þeir myndu þá mæta deildarmeisturum KR. Njarðvíkingar munu enda í sjöunda sæti sama hvernig fer hjá þeim í kvöld.
Það lið sem sigrar í Garðabæ og hreppir annað sætið í kvöld mun mæta Njarðvíkingum í fyrstu umferð úrslitakeppninar, en eflaust eru margir spenntir fyrir að sjá liðið úr Reykjanesbæ mætast. Hér að neðan má sjá myndband af Stefan Bonneau þar sem sést að hann er óðum að komast í gamla góða formið.
βαε. #thecomeback @basedstef12 pic.twitter.com/YIiDUozsgU
— Valentina. (@Itsvalentinaa_) March 9, 2016