Grindvíkingar úr leik eftir vítaspyrnukeppni
í kvöld fóru fram þrír leikir í 16-liða úrslitum VISA-bikars karla í fótbolta. Grindvíkingar mættu KA mönnum í blíðviðrinu í Grindavík. Að loknum venjulegum leiktíma var staðan jöfn, 1-1, og var leikurinn því framlengdur. Ekkert mark leit dagsins ljós í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni þar sem KA menn höfðu betur í bráðabana.
Grindvíkingar voru töluvert sterkari en Akureyringarnir á fyrstu mínútum leiksins. Þeir sóttu meira og voru ákveðnir í leik sínum. Á 19. mínútu voru þeir ansi nálægt því að komast yfir þegar Jóhann Helgason átti gott skot á mark gestanna en Sandor Matus, markvörður KA, varði vel. Á 39. mínútu fengu heimamenn dæmda á sig vítaspyrnu eftir að Alexander Magnússon braut á Hallgrími Mar Steingrímssyni. David Disztl fór á punktinn og skoraði af öryggi og KA menn því komnir yfir, algjörlega gegn gangi leiksins.
Í síðari hálfleik héldu Grindvíkingar áfram að skapa sér góð færi. Grétar Hjartarson jafnaði metin fyrir þá gulu á 61. mínútu með góðu skoti úr vítateignum eftir sendingu af hægri kantinum. Aðeins þrem mínútum síðar voru þeir ansi nálægt því að bæta við öðru marki þegar Grétar sólaði markmann KA og reyndi svo að senda boltann á Ondo en varnarmaður KA komst inní þá sendingu. Þegar flautað var til leiksloka var staðan enn jöfn, 1-1. Þar af leiðandi þurfti að framlengja leikinn. Nokkur góð færi litu dagsins ljós í framlengingunni en inn vildi boltinn ekki og því var gripið til vítaspyrnukeppni.
Þegar hvort lið hafði tekið fimm spyrnur var staðan jöfn, 4-4, og því þurfti bráðabana til að skera úr um hver fengi að fara áfram í átta liða úrslitin. KA nýttu sýna spyrnu en Auðunn Helgason fór á punktinn fyrir Grindavík og hitti ekki markið og KA-ingar því komnir áfram í átta liða úrslitin.
Næsti leikur Grindavíkur er gegn Fylki á Grindavíkurvellinum sunnudaginn 27. júní og hefst hann klukkan 16:00.
Víkurfréttamyndir / Sölvi Logason