Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Grindvíkingar úr leik eftir tap á heimavelli
Miðvikudagur 23. mars 2011 kl. 21:27

Grindvíkingar úr leik eftir tap á heimavelli

Í kvöld fór fram oddaleikur í Iceland Express-deildinni í körfubolta í Röstinni í Grindavík. Þar áttust við heimamenn og Stjarnan og var leikurinn æsispennandi og úrslit réðust ekki fyrr en á lokastundu. Svo fór að Stjörnumenn sigruðu með 69 stigum gegn 66 og því ljóst að Grindvíkingar eru komnir í sumarfrí.

Þorleifur Ólafsson var mættur aftur til leiks hjá Grindvíkingum en ljóst er að hans hefur verið sárt saknað í herbúðum þeirra undanfarið. Leikurinn í Röstinni var frekar jafn til að byrja með þótt Grindvíkingar væru alltaf skrefinu á undan Stjörnumönnum. Þegar fyrsti leikhluti var rúmlega hálfnaður var staðan 17-16 fyrir heimamenn. Þegar leikhlutanum lauk voru Grindvíkingar fimm stigum yfir 24-19. Stjörnumenn náðu svo forystunni af heimamönnum þegar rúmar fjórar mínútur voru til leikhlés og létu hana ekki af hendi áður en flautað var til hálfleiks. Staðan í leikhlé, 34-39 Stjörnumönnum í vil.

Atkvæðamestir í leikhlé hjá Grindavík voru Páll Axel og Ólafur Ólafsson, báðir með 8 stig. Þorleifur skilaði 5 stigum sem og Mladen Soskic. Ómar Sævarsson og Ryan Pettinella stóðu vaktina í fráköstunum en skoruðu lítið. Nick Bradford komst ekki á blað í fyrri hálfleik en hann var þó að spila menn uppi og átti 3 stoðsendingar.

Stjörnumenn höfðu áfram yfirhöndina í byrjun síðari hálfleiks og Grindavík elti sífellt. Nick Bradford komst svo loks á stigatöfluna þegar staðan var 42-49 fyrir gestina. Grindvíkingar tóku við sér í kjölfarið og náðu að koma muninum í eitt stig fyrir lokaleikhlutann. 55-56 staðan fyrir lokasprettinn í úrslitakeppninni fyrir annað hvort liðanna.

Fjórði leikhluti reyndist æsispennandi en þó var ekki mikið um stigaskor. Grindvíkingar komust yfir þegar um fimm mínútur lifðu leiks og þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir var staðan jöfn 64-64 og spennan rafmögnuð í Röstinni.

Á næstu tveimur mínútum gerðu bæði lið mikið af mistökum og skoruðu ekki fyrr en Kjartan Kjartansson setti þriggjastigaskot niður og breytti stöðunni í 64-67 fyrir Stjörnuna. Ólafur Ólafsson svaraði af bragði fyrir heimamenn með sniðskoti, 66-67 og 46 sekúndur eftir af leiknum. Stjörnumönnum tókst ekki að skora í næstu sókn og Ólafur Ólafsson fór á vítalínuna þegar 30 sekúndur voru eftir.

Honum tókst ekki að skora úr vítaskotunum og neyddist hann síðan til að brjóta á Justin Shouse í kjölfarið. Justin Shouse setti bæði skot sín niður og staðan orðin 66-69 fyrir Stjörnuna. Mladen Soskic reyndi þriggjastigaskot fyrir Grindavík þegar innan við 10 sekúndur voru eftir sem geigaði, Ólafur Ólafsson náði frákastinu og Stjörnumenn brutu á honum þegar aðeins 3 sekúndur voru eftir á klukkunni. Ólafur setti hvorugt skotið niður og Stjörnumenn náðu frákastinu og fögnuðu sigri, 66-69. Því er ljóst að Stjarnan fer áfram í undanúrslit.

Atkvæðamestir Grindvíkinga: Mladen Soskic 16 stig, Páll Axel 13 stig, Ólafur Ólafsson 10 stig/7 fráköst, Ryan Pettinella 9 stig/14 fráköst, Þorleifur Ólafsson 9 stig, Ómar Sævarsson 4 stig/9 fráköst.

Mynd/siggi: Ólafur Ólafsson misnotaði dýrmæt vítaskot á lokakafla leiksins í kvöld



EJS

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024