Grindvíkingar úr fallsæti
Eftir stórsigur gegn Tindastól
Grindvíkingar komust af fallsvæðinu í 1. deild karla í knattspyrnu í gær, eftir 5-1 sigur á Tindastólsmönnum á heimavelli sínum. Gestirnir frá Sauðárkróki náðu reyndar forystunni með marki eftir hálftíma leik og henni héldu þeir fram að leikhlé. Í síðari hálfleik mættu Grindvíkingar ákeðnir til leiks og uppskáru mark eftir aðeins tvær mínútur. Um var að ræða sjálfsmark hjá gestunum en Grindvíkingar létu kné fylgja kviði. Þeir Magnús Björgvinsson, Scott Ramsay, Tomislav Misura og Juraj Grizelj bættu við mörkum fyrir heimamenn áður en yfir lauk og öruggur sigur þeirra gulu því staðreynd.
Eftir leikinn eru Grindvíkingar með 11 stig í níunda sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Selfyssingum á þriðjudag.