Grindvíkingar töpuðu manni fleiri
Grindvíkingar tóku á móti Vestra í Lengjudeild karla í knattspyrnu í gær og hafði tækifæri til að komast upp fyrir Vestra með sigri. Það voru hins vegar leikmenn Vestra sem börðust betur og höfðu sigur að lokum.
Vestri var talsvert betra liðið í fyrri hálfleik og komst yfir á 8. mínútu með marki úr sínu fyrsta færi. Góð fyrirgjöf sem endaði með skallamarki.
Þremur mínútum síðar fengu Grindvíkingar vítaspyrnu og það var markahrókurinn Sigurður Bjartur Hallsson sem steig á punktinn. Markvörður Vestra sá hins vegar við honum og varði skotið frá Sigurði. Grindvíkingar voru því einu marki undir í hálfleik en bæði lið fengu færi til að bæta við mörkum.
Grindvíkingar unnu sig betur inn í leikinn í síðari hálfleik og á 70. mínútu missti Vestri mann af velli. Grindvíkingar gengu á lagið og juku pressuna á gestina, það skilaði árangri á 83. mínútu þegar Oddur Ingi Bjarnason jafnaði leikinn eftir góða sendingu frá Walid Abdelali.
Manni færri komust Vestramenn í sókn þegar tvær mínútur voru liðnar af uppbótartíma. Sóknarmaður þeirra komst einn gegn Aroni Degi Birnusyni og sendi boltann fram hjá Aroni sem virtist ná til boltans á marklínu en aðstoðardómari dæmdi boltann inni. Tæpara verður það varla en svekkjandi tap niðurstaðan.
Með tapinu fellur Grindavík niður um eitt sæti, er komið í sjöunda sæti Lengjudeildarinnar með tuttugu stig. Afturelding er með nítján stig en á leik til góða.