Grindvíkingar töpuðu á heimavelli - Ekki lausir við falldrauginn
Grindvíkingar í úrvalsdeild karla í knattspyrnu eru ekki enn sloppnir við falldrauginn fræga, því að þeir máttu sætta sig við 2-3 tap fyrir Fylki á heimavelli sínum í kvöld.
Grindvíkingar komust fyrst á blað þegar Orri Freyr Hjaltalín skoraði með skalla úr vítateig á 15. mínútu. Scott Ramsey hafði sent boltann inn í teiginn þar sem Zoran Stamenic framlengdi hann á Orra.
Adam var þó ekki lengi í Paradís eins og máltækið segir og átta mínútum síðar var Kjartan Ágúst Breiðdal búinn að jafna metin fyrir Fylkismenn með slysalegu marki. Hann tók aukaspyrnu langt úti á velli og sendi knöttinn inn í teig, en Óskar Pétursson í marki Grindvíkinga misreiknaði sig hrapallega og missti hann yfir sig og í markið.
Fylkismenn voru sterkari fram að hálfleik en ekki komu fleiri mörk fyrr en í upphafi þess seinni. Þá kom Einar Pétursson Fylkismönnum yfir þegar hann skoraði eftir klafs í vítateig Grindvíkinga.
Markahrókurinn Gilles Mbang Ondo var svo á ferðinni á 53. mínútu þegar hann jafnaði eftir glæsilegt upphlaup og gott skot.
Það var svo Fylkismaðurinn Albert Ingason sem gerði út um leikinn með marki úr vítaspyrnu á 66. mínútu. Vítið var dæmt þegar Óli Stefán Flóventsson og Jósef Kristinn Jósefsson brutu á fyrrum liðsfélaga sínum Jóhanni Þórhallssyni.
Nokkur góð færi litu dagsins ljós á lokasprettinum en fleiri urðu mörkin ekki og Grindvíkingar þurfa enn nokkur stig til að vera fullvissir um stöðu sína í deildinni.
VF-mynd úr safni