Grindvíkingar tíundu og Keflavík féll
Lokastaðan er afleit fyrir Suðurnesjaliðin í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Keflvíkingar féllu og nældu sér aðeins í fjögur stig í sumar. Grindvíkingar, sem fram eftir sumri voru í toppslagnum höfnuðu hins vegar í 10. sæti deildarinnar með 25 stig.
Keflvíkingar mættu Valsmönnum í dag og töpuðu með fjórum mörkum gegn einu. Valur var að leika til sigurs á Íslandsmótinu og fagnaði Íslandsmeistaratitli í leikslok. Keflvíkingar voru 4:0 undir en skoruðu mark þegar tvær mínútur lifðu af venjulegum leiktíma.
Það var fjör í Grindavík þar sem heimamenn tóku á móti ÍBV frá Vestamannaeyjum. Þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum höfðu þrjú mörk verið skoruð og leikurinn endaði með 5:2 sigri ÍBV.